„Stóra bomban“ var hápunktur harðvítugra deilna Jónasar Jónssonar frá Hriflu við Læknafélag Íslands. Dómsmálaráðherra sagður geðveikur en sneri taflinu sér í hag.
„Ég þyki dálítið skrýtinn, óhefðbundinn,“ segir Ólafur Darri Ólafsson leikari í hlutverki ráðherrans Benedikts í samnefndum sjónvarpsþáttum. Benedikt er látinn glíma við geðraskanir en mannkynssagan geymir ótal dæmi ráðamanna sem hafa átt við þann vanda að etja, en þess eru ekki síður mörg dæmi að stjórnmálamenn hafi verið ásakaðir um andleg vanheilindi. Skemmst er að minnast greinasafnsins The Dangerous Case of Donald Trump frá árinu 2017 þar sem 27 geðlæknar, sálfræðingar og aðrir sérfræðingar í andlegu heilsufari töldu sig sýna fram á slælega geðheilsu Trumps Bandaríkjaforseta, sem væri að þeirra mati ógn við bandarískt samfélag.
Ásakanir um geðveiki hafa þó aldrei vakið jafn harðar deilur hérlendis og í „Stóru bombunni“ árið 1930. Sú deila endurspeglaði þau óvægnu átök sem einkenndu stjórnmálalíf þess tíma.
Ráðherra vitjað á sjúkrabeði
„Stóra bomban“ var nafn á grein sem birtist í aukablaði Tímans, málgagns Framsóknarflokksins, 28. febrúar 1930. Höfundur var Jónas Jónsson, dómsmálaráðherra Framsóknarflokksins, en greinin er frásögn af heimsókn Helga Tómassonar, yfirlæknis á Kleppi, til Jónasar nokkrum dögum fyrr, þar sem Helgi hefði látið í ljós það álit sitt að dómsmálaráðherrann væri geðveikur. Jónas hafði legið með kvefpest heima hjá sér í tíu daga þegar yfirlækninn bar að garði. Grípum niður í skrif Jónasar: „Ég spurði spaugandi, hvort þér kæmuð til að bjóða mér á Klepp. Þér svöruðuð því ekki, en af óljósu fálmi yðar þóttist ég vita um „bombuna“…“
Helgi Tómasson svaraði „Stóru bombunni“ í Morgunblaðsgrein. Þar kom fram að sögur um geðveiki dómsmálaráðherrans hefðu verið á kreiki um langa hríð. Þar á meðal hefði Jónas Kristjánsson læknir haldið því fram þremur árum fyrr að nafni hans dómsmálaráðherrann væri „andlega sjúkur“. Helgi stakk upp á því að Alþingi fengi hingað til lands erlenda sérfræðinga til að „rannsaka heilbrigði ráðherrans“.
Þá höfðu um nokkurra ára skeið staðið harðvítugar deilur milli Jónasar, sem jafnframt var heilbrigðismálaráðherra, og Læknafélags Íslands. Þær snerust einkum um veitingu héraðslæknisembætta.
Bardaginn heldur áfram
Helgi sagði enn fremur í svargrein sinni að Jónas hafi hálfrisið upp í rúmi sínu og sagt í spurnartón: „Þér eruð sendur sem geðveikralæknir?“ Helgi kvaðst hafa neitað því og sagði svo í greininni: „En af því að ég skoðaði mig sem frekar vinveittan ráðherranum, þá hefði ég viljað koma til hans og segja honum, að ég og nokkrir aðrir læknar litum svo á, sem ýmislegt í fasi hans og framkomu væri – ekki normalt.“ Jónas mun þá hafa svarað: „Ég skoða þetta aðeins sem eina læknaósvífnina enn – ég hef 37,4 stiga hita og kvef – dettur ekki í hug að tala um þetta við yður. Þér fáið mig aldrei á Klepp.“ Því næst rétti Jónas fram höndina til kveðju og sagði svo með augun lygnd aftur: „Bardaginn heldur áfram, hvort sem ég verð ráðherra eða ekki. Sá sterkari skal sigra. Berjist nú með ykkar vopnum og vottorðum. Við lifum máske báðir eftir 5 ár og skulum þá líta yfir vígvöllinn.“
Ráðherra snýr taflinu við
Guðjón Friðriksson, ævisöguritari Jónasar, segir Stóru bombuna meistarastykki í áróðri. Menn hefðu þá um langa hríð hvíslast á um geðveiki ráðherrans en ekkert í greininni hefði bent til geðveiki. Grípum niður í ævisöguna: „Fram til þessa höfðu völdin verið að gliðna undan Jónasi, samsæri voru gegn honum í hverju horni, en nú sneri hann taflinu við í einu vetfangi með einu pennastriki svo að segja.“
Kné fylgir kviði
Stóra bomban dró heldur betur dilk á eftir sér. Í kjölfar hennar var Helga Tómassyni vikið fyrirvaralaust frá störfum yfirlæknis á Kleppi. Þá máttu þeir læknar sem lýstu yfir stuðningi við Helga þola margvíslegan miska úr hendi dómsmálaráðherrans á næstu misserum. Jónas hætti algjörlega að auglýsa læknisembætti laus til umsóknar og hætt var að greiða læknum fyrir kennslu við Háskólann. Guðmundur Hannesson læknir sagði í Læknablaðinu 1931 að þetta hefði gengið svo langt að dómsmálaráðherrann hefði sjálfur verið farinn að ráða og reka hjúkrunarkonur og matreiðslufólk Landsspítalans. Þá var þeim læknum sem staðið höfðu með Helga neitað um styrki til náms erlendis.
Allt breytt, og þó
Stjórnmálalíf samtímans er hrein lognmolla miðað við það sem tíðkaðist um 1930 og þá hafa viðhorf manna til geðsjúkdóma gerbreyst. Það sýndi sig þegar Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri, kom fram opinberlega og tjáði sig af hreinskilni um andleg veikindi sín. En Ólafur þurfti engu að síður að glíma við mikla fordóma þar sem geðhvarfasýki sú sem hann þjáðist af var heimfærð upp á allt í hans tilveru – þegar fyrir lá að hann var ekki veikur þann tíma sem hann gegndi embætti borgarstjóra. Einn fárra þeirra sem tóku upp hanskann fyrir borgarstjórann fyrrverandi orðaði það svo að Ólafur F. hefði verið „heilbrigðastur allra sem sátu samtímis honum í borgarstjórn. Hann var sá eini sem gat lagt fram heilbrigðisvottorð.“