Farið er hörðum orðum um stefnu borgarinnar hvað varðar götulokanir í miðbænum í tveimur greinum Morgunblaðinu í dag. Lárus Guðmundsson, eigandi veitingastaðarins Rossopomodoro, skrifar grein undir yfirskriftinni „Borgarstjóri: Nú er nóg komið!“ Lárus segir að nú þrengi mjög að hvers kyns þjónustustarfsemi í heimsfaraldrinum en Lárus hefur rekið staðinn í 14 ár og alltaf á sömu kennitölunni. Lárus segir rekstraraðila hafa lengi glímt við annan vanda en kórónuveirufaraldurinn og það sé afstaða borgaryfirvalda til bílaumferðar í miðbænum:
„Við sem rekum starfsemi í miðbænum höfum þó þurft að eiga við annars konar faraldur undanfarin átta ár, faraldur sem birtist í lokunum gatna og sífellt meiri höftum á aðgengi að miðbænum. Þetta hefur gert það að verkum að Íslendingar sækja miklu minna í bæinn en áður. Þeir koma jafnan á sínum bíl en götulokanir hafa fælt stóran hluta þeirra frá því að koma í bæinn. Þannig hefur fólk kerfisbundið verið vanið á að fara annað að sækja verslun og þjónustu.
Ég þekki eðlilega vel til í miðbænum eftir 14 ára starf og er í sambandi við fjölmarga vini mína á svæðinu, veitingamenn og kaupmenn. Enginn þeirra er hlynntur þessum lokunum og borgaryfirvöldum er fullkunnugt um andstöðu afgerandi meirihluta rekstraraðila. Hinir háu herrar í ráðhúsinu hafa þó kosið að skella skollaeyrum við tilmælum okkar. Ekkert samráð er við okkur haft og okkur ítrekað sýnd lítilsvirðing af þeirra hálfu. Við höfum mátt þola hroka og yfirgang.“
Lárus segir þó að götulokanirnar séu ekki eina vandamálið heldur einnig sú aðgerð að snúa við akstursstefnu á hluta Laugavegarins:
„En það eru ekki bara lokanir sem spilla fyrir viðskiptum heldur tóku borgaryfirvöld upp á því að snúa við akstursstefnu á Laugavegi milli Klapparstígs og Frakkastígs. Sú aðgerð gerir ekkert annað en ergja þá sem eiga erindi í bæinn og má jafna því við að götunni sé lokað.“
Lárus segir að nú sé mikilvægt að snúa vörn í sókn og hann vill snúa akstursstefnunni á þessum hluta götunnar við aftur og afnema allar götulokanir á Laugavegi, Skólavörðustíg og Bankastræti.
Matthildur Skúladóttir, íbúðaeigandi og fyrrverandi rekstraraðili við Skólavörðustíg, skrifar: „Hroki og yfirgangur borgaryfirvalda í garð kaupmanna við Laugaveg og hluta
Skólavörðustígs er ekkert annað en hreint og klárt ofbeldi.“ Segir hún ekkert tillit hafa verið tekið til mótmæla verslanaeigenda við ákvarðnir um götulokanir í miðbænum. Engin teikn séu á lofti um að borgaryfirvöld muni leita samráðs við rekstraraðila hvað þetta varðar.
Borgarstjóri er þeirrar skoðunar að frekari götulokanir á tímum veirunnar muni styrkja verslun í miðbænum í sumar. Hyggst hann ræða við sóttvarnalækni um frekari götulokanir með tilliti til sóttvarna en auðveldara sé fyrir gangandi vegfarendur að halda tveggja metra regluna ef engin bílaumferð sé um göturnar. Farið er yfir málið í frétt í Morgunblaðinu þann 26. apríl og þetta haft eftir Degi:
„Þetta snýr eiginlega ekki síður að því að koma til móts við rekstraraðila. Við erum til dæmis með fjöldann allan af litlum veitingastöðum sem gætu tvöfaldað sig með því að stækka sig út á gangstéttina fyrir utan, ekki bara við Laugaveginn heldur kannski líka annars staðar. Við viljum losa um regluverkin og reglurnar og gera breytingar sem búðir eða veitingastaðir vilja gera auðveldari en nokkurn tímann áður og leyfa mannlífinu að flæða um allt á sama tíma og við virðum sóttvarnarreglur.“