Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur endurnýjað samning við Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ), um lögfræðiráðgjöf til innflytjenda.
MRSÍ hefur veitt endurgjaldslausa lögfræðiráðgjöf til innflytjenda um sjö ára skeið á grundvelli samnings við félagsmálaráðuneytið. Skrifstofan hefur árlega fengið styrki til að greiða lögfræðingum og túlkum og var styrkurinn í ár hækkaður úr tæpum 6 milljónum upp í 6,5 milljónir.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir: Góð reynsla hefur verið af þjónustunni og fer aðsóknin að lögfræðiráðgjöfinni vaxandi Eftirspurnin eftir viðtalstímum er stöðug og oftast er fullbókað í tíma. Innflytjendur leita helst eftir lögfræðiráðgjöf þegar kemur að sifjamálum, atvinnumálum, umsóknum um ríkisborgararétt og dvalarleyfi.“