fbpx
Mánudagur 19.maí 2025
Eyjan

Óáhugaverðar kosningar – en sannarlega ekki þær fyrstu

Egill Helgason
Þriðjudaginn 21. júní 2016 23:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vinur minn einn, glöggur á pólitík, sagði að hann hefði ekki upplifað óáhugaverðari og minna spennandi kosningar á Íslandi en forsetakosningarnar á laugardaginn.

Það kann að vera rétt – en ég fór að hugsa, þær eru fleiri kosningarnar sem hafa ekki verið sérlega áhugaverðar.

Ég held ég hafi notað atkvæði mitt fyrst í forsetakosningum 1980, þá voru í framboði Guðlaugur Þorvaldsson, Albert Guðmundsson, Pétur Thorsteinsson og Vigdís Finnbogadóttir. Eftir á að hyggja var þetta ekki sérlega áhugavert. Umræðurnar kvöldið fyrir kosningar voru man ég alveg ótrúlega andlausar, það sem ég man mest eftir var að einn frambjóðandinn var í of stuttum buxum þannig að sást í bert milli sokkanna og skálmarinnar. Þá var kjörinn forseti með lægsta hlutfalli atkvæða sem hefur þekkst, aðeins 33,8 prósentum.

Það var heldur ekki eins og maður væri djúpt snortinn í forsetakosningunum 1996 þegar í framboði voru Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Agnarsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Ástþór Magnússon. Þá var sagt að frambjóðandinn sem sigraði hefði gert það vegna þess að hann átti svo góða konu og vegna þess að auglýsingar þar sem hann var rægður höfðu öfug áhrif. Að sumu leyti var það þó eins og kraftaverk hvað pólitískum áflogamanni af sauðahúsi Ólafs Ragnars tókst að vera penn og skikkanlegur í kosningunum – hann birtist allt í einu eins og nýr maður.

Forsetakosningar snúast ekki um hag landsmanna, stefnu eða framtíð þjóðar. Það hafa þær í raun aldrei gert. Embættið er einfaldlega ekki þess eðlis. Það er á mörkunum að við vitum til hvers það er og við eigum í raun fjarskalega lítið undir því sjálf hver er forseti – ólíkt því þegar er kosið til þings. Einn þráðurinn í umræðum fyrir forsetakosningar er í raun leitin að tilgangi embættisins, um hann er rætt fram og til baka kosningar eftir kosningar. „Hvernig“ forseti ætlarðu að vera er spurt í umræðum. Eitthvað er svo reynt að koma af stað umræðum um mál sem eru í raun ekki á verksviði forsetans, en slíkt fær eðlilega litlar undirtektir.

Þegar þessu sleppir fara forsetakosningar gjarnan að snúast um skrítna hluti eins og maka, furðulegar ávirðingar sem eru grafnar upp úr gömlum skrifum eða meinta veru frambjóðenda í pólitískum flokkum sem þeir kannast ekki sjálfir við.

Fyrstu kosningarnar sem ég man eftir voru forsetakosningarnar, 1968, þegar Kristján Eldjárn og Gunnar Thoroddsen áttust við. Meðal þess sem var rætt á tíma þeirra kosninga var hvað Gunnar væri snobbaður og á hinn bóginn að Halldóra, eiginkona Kristjáns, væri svo ófín að hún hefði farið í slopp út í mjólkurbúð.

Nú virðist aðalmálið vera hvort Guðni sé laumu-sjálfstæðismaður og hvort Ríkisútvarpið hafi verið á bak við framboð hans. Þetta er í raun endurtekið efni frá síðustu kosningum þegar því var komið á kreik að Þóra væri laumu-samfylkingarkona og þá voru áflogin aftur komin upp í Ólafi Ragnari, andstæðingi hennar, sem einmitt beindi spjótum sínum að Ríkisútvarpinu.

Og það er svo skrítið að framan af í kosningabaráttunni var það Davíð Oddsson sem gaf tóninn, þrátt fyrir lítið fylgi, en nú virðist það helst vera Ástþór Magnússon.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Óánægðir sósíalistar ráðast á Sönnu og segja hana misnota aðstöðu sína – „Fullkomlega óeðlilegt og óviðeigandi“

Óánægðir sósíalistar ráðast á Sönnu og segja hana misnota aðstöðu sína – „Fullkomlega óeðlilegt og óviðeigandi“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Logi furðulostinn eftir fyrirspurn Ingibjargar á Alþingi sem vill að Alþingi skipti sér af fréttaflutningi Ríkisútvarpsins um lekamálið

Logi furðulostinn eftir fyrirspurn Ingibjargar á Alþingi sem vill að Alþingi skipti sér af fréttaflutningi Ríkisútvarpsins um lekamálið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Er Bergþór Ólason orðinn helsti siðgæðisvörður Alþingis?

Orðið á götunni: Er Bergþór Ólason orðinn helsti siðgæðisvörður Alþingis?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Eins milljarðs gjaldþrot Frostfisks ehf. – Rúmar 440 milljónir fengust upp í kröfur

Eins milljarðs gjaldþrot Frostfisks ehf. – Rúmar 440 milljónir fengust upp í kröfur
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Að vanvirða líf þar til það þagnar

Steinunn Ólína skrifar: Að vanvirða líf þar til það þagnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þurfti að stilla til friðar eftir háðsglósur á Alþingi þar sem þingmaður móðgaðist og meirihlutinn flissaði – „Bíddu, hvar hefurðu verið?“

Þurfti að stilla til friðar eftir háðsglósur á Alþingi þar sem þingmaður móðgaðist og meirihlutinn flissaði – „Bíddu, hvar hefurðu verið?“