Ég kynntist tónlist Leonards Cohens fyrst í herbergjum unglingsstúlkna sem ég þekkti, það voru körfustólar, reykelsi, tekrúsir – stundum var reykt hass. Mér fannst eitthvað pínu óþolandi við hann þá. Held samt að það hafi mestanpart verið stælar.
Textarnir voru skringilega innilegir eins og röddin – ég átti ekki auðvelt með að þíðast þetta. En svo fór maður að fljóta með – ég kveikti fyrst á sársaukanum í Famous Blue Raincoat. Svo á Bird on a Wire, þessi sterka myndlíking. Marianne var sungið í partíum. Suzanne var dularfulla stelpan sem var svo auðvelt að verða skotinn í en erfitt að ná.
Löngu seinna sá ég Cohen á löngum tónleikum í Laugardalshöll. Þeir voru frábærir. Hann gaf áheyrendum allt sem þeir vildu heyra, var einstaklega örlátur. Þá var hann á seinna vinsældaskeiði með lög eins og First We Take Manhattan, I’m Your Man og Take This Waltz. Síðastnefnda lagið var byggt á ljóði eftir Lorca.
Ég dvaldi svo nokkuð lengi á grísku eyjunni hans Leonards, Hydra. Þar varð Bird on a Wire til og þar var Marianne. Hann var ekki þarna lengur en fólkið talaði um hann og mér fannst ég skilja aðeins hvað hann hefði uppgötvað þarna.
Ég ætla að setja inn þetta lag nú þegar ég frétti andlát hans. Takk fyrir samfylgdina Leonard, þína djúpu og vitru rödd, lögin og ljóðin.