fbpx
Mánudagur 19.maí 2025
Eyjan

Theresa May talar eins og Járnfrúin hefði aldrei gert

Egill Helgason
Miðvikudaginn 13. júlí 2016 22:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt einkenni stjórnartíðar Margaret Thatcher var að heilu landsvæðin og þjóðfélagshóparnir voru skildir eftir. Máttu í raun éta það sem úti frýs – meðan hlaðið var undir aðra. Ofuráherslan á fjármálasýsl sem tröllríður heiminum er frá þeim tíma. „Viðskiptalífið“ skyldi vera númer eitt, hinn ómengaði kapítalismi.

Þessar hugmyndir hafa reynst vera mjög skaðvænlegar, en áhrifamáttur þeirra er svo mikill að við tökum varla eftir því hversu sterkt þær hafa mótað hugarheim okkar. En þetta á ekki síst við í Bretlandi. Þar hefur aldrei farið fram neitt raunverulegt uppgjör við thatcherismann – en að nokkru leyti má segja að atkvæðagreiðslan um útgönguna úr Evrópusambandinu hafi verið andóf við því hvernig England er orðið á tíma túrbó-kapítalismans.

Íhaldsflokkurinn breski mun aldrei segja opinberlega að Thatcher hafi verið skaðvaldur, að arfleifð hennar hafi aukið ójöfnuð og stéttaskiptingu. En það er merkilegt að sjá hvernig hinn nýi forsætisráðherra, Theresa May, talar í fyrstu ræðu sinni eftir að hún flutti í Downingstræti. Í raun sýnist manni að hugtökunum hægri og vinstri hafi verið snúið á hvolf, eins og reyndar var sumpart í atkvæðagreiðslunni.

May talar um samstöðu, um fátækt og ójöfnuð, hlutskipti „verkalýðsstéttarinnar“ – það er hugtak sem Thatcher notaði aldrei nema með mikilli fyrirlitningu. Hún talar um að ekki megi skilja neinn eftir – stjórnin eigi ekki bara að vinna fyrir hina fáu auðugu. Hún talar um að líf almennings sé miklu erfiðara en flestir þingmenn í Westminster skilja.

Hvaða stjórnmálamaður sem er á vinstri vængnum hefði getað tekið sér orðin hér að neðan í munn – en það er öruggt að járnfrúnni hefði svelgst rækilega á þessu.

Nú er sagt að öll stjórnmál á Englandi fari fram á hægri væng stjórnmálanna. Verkamannaflokkurinn undir Jeremy Corbyn er einfaldlega ekki með. Þar eru innbyrðis átök, flokkurinn stóð sig afleitlega í Brexit-kosningunni, það vita allir að Corbyn verður aldrei forsætisráðherra. Það er þeim mun merkilegra að sjá nýjan forsætisráðherra úr Íhaldsflokknum reyna að höfða með þessum hætti til kjósenda sem lengstum hefðu átt miklu meiri samleið með Verkamannaflokknum.

En svo er spurningin hvort nokkuð sé að marka orð May. Er þetta kannski bara málfroða, tilraun til að plástra sár sem rifnuðu upp í kosningunum 23. júní?

 

Screen Shot 2016-07-14 at 01.31.39

 

Það er svo merkilegt að May skuli skipa Boris Johnson sem utanríkisáðherra. Hann hefur núorðið það orð á sér að hann sé bæði svikull og lyginn, eigi við áfengisvandamál að stríða og sé hugsanlega siðblindur. En Johnson fær að fást við alls kyns flækjur sem tengjast útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Að sumu leyti má segja að þetta sé mátulegt á hann, það má segja að hann þurfi að taka til eftir sig. Johnson er ekkert sérlega líklegur til að valda þessu verkefni og víða má lesa að það sé kaldhæðnislegt af May að láta hann bera þessa byrði. Kannski finnst henni gott að hafa hinn svikula Johnson nálægt sér, en hann kemur varla til greina framar sem forsætisráðherra.

May var á móti því að Bretland gengi úr ESB, en tók þó ekki mjög harða afstöðu. Hún segir að ekki liggi á að virkja grein 50 í Lissabonsáttmálanum, en það er hin formlega útganga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Lögregla rúin trausti

Lögregla rúin trausti
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar sakar Jón um að tala niður til þjóðarinnar og Jón minnir á söguna um litlu gulu hænuna

Ragnar sakar Jón um að tala niður til þjóðarinnar og Jón minnir á söguna um litlu gulu hænuna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þurfti að stilla til friðar eftir háðsglósur á Alþingi þar sem þingmaður móðgaðist og meirihlutinn flissaði – „Bíddu, hvar hefurðu verið?“

Þurfti að stilla til friðar eftir háðsglósur á Alþingi þar sem þingmaður móðgaðist og meirihlutinn flissaði – „Bíddu, hvar hefurðu verið?“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að flensa afturendann

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að flensa afturendann