Harpa Hreinsdóttir, kennari við Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi, skrifar grein í Kvennablaðið þar sem hún fjallar um fyrirbæri sem hún nefnir „áunninn athyglisbrest“. Þetta gerist að hennar sögn þegar fólk er orðið svo háð því að nota snjallsíma og fartölvur að það getur ekki lesið lengri texta.
Harpa telur að þessi kvilli hái mörgu ungu fólki – og reyndar líka einhverjum af þeim sem eru miðaldra.
Þegar fólk venur sig á að vera sífellt að tékka á Facebook, fylgjast með sleitulausu tísti áTwitter, hlusta á meðan á tónlist í sínum eyrnafíkjum, senda eina og eina mynd á Instagram, kíkja á fyndin myndbönd á YouTube, skanna fyrirsagnir með tröllaletri á helstu slúður-vefmiðlum til að missa nú ekki af neinu og vera í leiðinni að læra með hjálp Google og skima vefsíður í stað þess að lesa þær … tja slíkt ýtir ekki beinlínis undir hæfileikann til að sökkva sér ofan í eitthvert sæmilega bitastætt efni, jafnvel torskilinn texta eða torskilda stærðfræði.
Allir kennarar kannast við hve erfitt er að fá nemendur til að leggja frá sér ástkæru snjallsímana sína í kennslustundum: Það er eins og verið sé að slíta úr þeim hjartað að heimta að síminn sé settur ofan í tösku! Og þetta er svo sem skiljanlegt: Í heilli kennslustund gæti nemandinn misst af alls konar SMS-um, spennandi Fb. skilaboðum, ógeðslega fyndnum Snapchat myndum o.s.fr.
Harpa fjallar líka um hugmyndir um að koma til móts við þetta með því að spjaldtölvuvæða skólakerfið og sjóða námsefnið niður í æ styttri glósur sem hægt er að setja á YouTube.
Flottar skýrslur um að þetta auki sjálfstæði í námi birtast; þegar frændur vorir Danir eru uggandi yfir hve I-pad tilraunakrakkarnir þeirra mælast með allt niðrum sig í Pisa benda Íslendingar kokhraustir á að Pisa-prófin mæli einfaldlega ekki réttu hlutina og halda ótrauðir áfram á sinni snjallbraut, með snjallsíma og snjalltölvur. Og því er flaggað að kennarar sem ætlast til að nemendur lesi eða reikni eða læri í kennslustundum séu gamaldags einstefnumiðlarar sem séu löngu dottnir úr móð án þess að fatta það sjálfir. Þeir kennarar sem ætlast til heimanáms eru nátttröll.
Árangurinn af öllu þessu snjalla og netvædda er að krakkar læra snifsi hér og snifsi þar en hafa engan grunn til að standa á, ekkert bitastætt til að tengja við, þekkingarmolarnir svífa í lausu lofti.
Og þegar þeir loksins komast ekki hjá því að lesa heila bók uppgötva þeir sér til skelfingar að þeir eru komnir með áunninn athyglisbrest: Texti sem er lengri en ein skjáfylli verður þeim ofviða.