Kosningaúrslitin í nótt eru ekkert sérlega ótvíræð. Talning í Reykjavík er sérkapítúli. Það er merkilegt hvernig er hægt að telja svona illa – þannig að tölur eru að sveiflast stórkostlega til og frá eftir því sem þær birtast og úrslit liggja ekki fyrir fyrr en seint og um síðir.
Stóru fréttirnar eru afar léleg kjörsókn. Hún er áhyggjuefni. Er hægt að álykta sem svo að það sé ungt fólk sem ekki skilar sér á kjörstað? Það er með ólíkindum að kjörsókn í Reykjavík hrynji um heil 10 prósentustig milli kosninga, hún var 73 prósent 2010 en er 63 prósent núna.
Eru einhvers konar rafrænar kosningar framtíðin – til að hamla gegn þessu?
Píratar rétt ná inn manni á lokametrunum í Reykjavík – eftir að hafa verið úti alla nóttina. Það gat ekki verið tæpara.
Ég benti á það fyrir löngu að Sjálfstæðisflokkurinn væri líklegur til að fá góða kosningu víðast hvar, nema þá í Reykjavík. Þar er hins vegar stærsti atkvæðastabbinn svo yfir heildina er flokkurinn ekki að ná upp í tölur á landsvísu eins og þær voru fyrir hrun. Í Vestmannaeyjum er Sjálfstæðisflokkurinn að fá tölur sem sjaldnast sjást í vestrænum lýðræðisríkjum.
En allt bendir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórn í öllum bæjunum í kringum Reykjavík. Í Hafnarfirði er líklegast að Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð nái saman eftir langt valdaskeið Samfylkingarinnar.
Samfylkingunni í Hafnarfirði var grimmilega refsað – helmingur fylgisins fór yfir á Bjarta framtíð. Og eins fær Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ útreið. Það kemur ekki sérstaklega á óvart. Tími Árna Sigfússonar sem bæjarstjóra virðist vera liðinn.
Björt framtíð festir sig á sveitarstjórnarstiginu og það er afar mikilvægt fyrir flokkinn. Tölurnar í Reykjavík hljóta þó að valda flokknum vonbrigðum. En þær sýna glöggt að í borginni er hálfpartinn um leiðtogakosningu að ræða – Dagur B. Eggertsson er kosinn út á að hafa verið næstráðandi í síðasta meirihluta og fyrir að hafa leiðtogalegast fas frambjóðenda.
En um Bjarta framtíð gildir það sama og um Pírata – fylgið upp úr kjörkössum er minna en í skoðanakönnunum. Aftur gæti það verið kjörsóknin sem hefur þessi áhrif?
Kosning Samfylkingarinnar er út úr kú við það sem er að gerast víðast um landið þar sem hún fer yfirleitt halloka.
Framsóknarflokkurinn náði að stórauka fylgi sitt í Reykjavík á síðustu metrunum. Þetta verður rætt fram og til baka, en svo viðist að moskumálið hafi haft afgerandi þýðingu. Þetta var útspil sem birtist rétt fyrir kosningar – og virkaði svona líka vel. Geta má þess að í síðustu kosningum bauð flokkurinn fram Einar Skúlason í Reykjavík, fyrrverandi forstöðumann Alþjóðahússins og eindreginn fjölmenningarsinna.
Nú er annað uppi á teningnum og árangurinn er vissulega betri. En þá er spurning hvernig Framsóknarflokkurinn sem eignast aftur borgarfulltrúa ætlar að halda þessu máli vakandi.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar stórt í Reykjavík. Það eru heil 7 prósentustig sem eru farin frá því í síðustu kosningum – en þá var fylgi flokksins í lágmarki – þetta er þó ekki alveg jafn skelfilegt og leit út í sumum skoðanakönnunum. Einhvern veginn virðist allt upplegg flokksins fyrir kosningarnar hafa byggst á misskilningi – listi með þrjá miðaldra karlmenn í efstu sætum gengur varla og það er heldur neyðarlegt að þurfa að kalla inn leiðtoga frá Vestfjörðum, mann sem var nánast óþekktur í borginni. Deilurnar innan flokksins hafa ekki hjálpað og eilífar skammir sem dundu yfir frá gömlum flokksmönnum. Einhver hluti fylgis Sjálfstæðisflokksins virðist hafa farið yfir á Framsókn.
VG er ekki að skora neitt. Flokkurinn er með vinsælasta formann allra stjórnmálaflokka, en framboð hans víðast um landið virka afar veik. Flokkurinn kemur þó einum manni inn í Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri – líkt og síðast – og í Reykjavík er Sóley Tómasdóttir inni, en með lágar fylgistölur.
Sóley er þó samkvæmt lokatölum í Reykjavík komin í oddaaðstöðu – ásamt með Pírötunum. Slíkt getur styrkt VG verulega. Öruggt hlýtur að teljast að Sóley gangi gamla meirihlutanum á hönd, það er útilokað eftir það sem á undan er gengið að VG vinni með Framsókn. Þannig að Sóley getur ekki selt sig mjög dýrt, en getur þó til dæmis gert kröfur um að komið verði til móts við hugmyndir VG um gjaldfrjálsan leikskóla.
Sá möguleiki er auðvitað líka til að Samfylking og BF bjóði Framsókn til viðræðna – en hann verður að teljast mjög fjarlægur. Það verður sjálfsagt mikill fögnuður í borgarstjórninni þegar Framsóknarkonurnar Sveinbjörg og Guðfinna leggja til að lóðaúthlutun til mosku verði dreginn til baka.
Þetta gætu reynst vera sögulegar kosningar. Við gætum horft aftur til þeirra eftir nokkur ár þegar Íslendingar verða í deilum um innflytjendamál – þar sem hingað til hefur mestan part verið friður – og hugsað að þarna hafi lokið verið tekið af öskjunni sem kennd er við Pandóru. En nú hefur sýnt að þau geta verið gagnleg til atkvæðaveiða.