Greinin sem Pawel Bartoszek birti í Fréttablaðinu í dag nær því að vera instant klassík. Þetta eru einhver flottustu pólitísku skrif sem hafa sést á Íslandi.
Pawel hefur þann merkilega bakgrunn að hafa alist upp í Póllandi á tíma kommúnisma og herstjórnar. Það var Jaruselski hershöfðingi sem ríkti í æsku hans.
Hann hefur sýn á samfélagið sem byggist á kynnum af einræði, af skoðanakúgun og höftum.
Pawel minnir okkur á það í greininni að við lifum í „góðu ríki“ – og að ríkin í kringum okkur eru líka „góð ríki“.
Þetta er afar þörf áminning.
Hið vestræna lýðræði sem er iðkað í Evrópu er engan veginn gallalaust. En þetta er besta stjórnarform sem hefur þekkst í sögunni.
Við njótum lýð- og mannréttinda, höfum tjáningarfrelsi, ferðafrelsi, erum að mestu jöfn fyrir lögunum, það er haldið uppi velferðarkerfi sem tryggir læknisþjónustu og félagsþjónustu.
Þetta er ekki fullkomið. En það er hægt að gera betrumbætur á kerfinu án þess að úthella blóði. Evrópa hefur undanfarna áratugi upplifað dæmalausa velmegun.
Fyrir þetta börðust menn í heimsstyrjöldinni, þá voru um tíma ekki nema fimm lýðræðisríki eftir í Evrópu.
En fólk getur orðið þreytt og ófullnægt og leitt á því sem það hefur – svoleiðis tilfinningar geta líka fylgt velmeguninni.
Þegar ég var ungur voru hópar ungs fólks sem gengu á hönd marxisma og jafnvel lenínisma og maóisma. Þetta fólk naut besta atlætis og menntunar sem nokkur kynslóð hafði haft fram af því. Samt var í því einhver ófullnægja sem olli því að það vildi kollvarpa vestrænu lýðræði.
Hinum megin Berlínarmúrsins, þar sem Pawel ólst upp, þráði fólkið hins vegar lýðræði, mannréttindi, tjáningar- og ferðafrelsi. Unga fólkið vestan megin hafði þetta allt.
Óvinir lýðræðisins og hins opna samfélags geta semsagt sprottið upp á ólíklegustu stöðum. Nú sjáum við þá aðallega í líki hægri öfgaflokka. En enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Lýðræðið okkar tryggir meira að segja að slíkir flokkar geta boðið sig fram til þjóðþinga – líka Evrópuþingsins – og tekið þar sæti.
Pawel skrifar:
Við búum í góðu ríki. Við höfum flest vanist því að búa í góðu ríki og sjáum varla fyrir okkur hvernig hitt ætti að líta út. En því miður geymir sagan dæmi um það þegar ríki verða vond, stundum jafnvel með lýðræðislegum aðferðum. „Auðvitað mun slíkt aldrei gerast hér,“ hugsar fólk.
Hvað á ég við með því að ríkið sé gott? Ég á ekki við að allt sem ríkið geri þurfi að vera gott. Eða að allir sem hjá ríkinu starfi séu gott fólk. Góð ríki gera fullt af rugli. Stundum vegna peningaskorts, stundum vegna fáfræði, stundum vegna hagsmunaárekstra. En í grundvallaratriðum keppa góð ríki þó að því að borgarar þeirra fái að blómstra: að þeir séu látnir í friði ef þeir valda ekki skaða og fái jafnvel hjálp til að gera gagn. Ísland er gott ríki. Flest ríkin í kringum okkur eru góð ríki. Alþýðulýðveldin í Mið- og Austur-Evrópu sem liðu undir lok fyrir um aldarfjórðungi voru vond ríki.
Og Pawel leggur áherslu á að flestir sem fari í stjórnmál vilji vel, þótt sé ágreiningur um leiðir og markmið. Það setur fram sínar ólíku hugmyndir ekki af mannvonsku, heldur gæsku, eins og hann orðar það. En svo eru líka til „þeir sem meina illa“. Hugmyndir þeirra samræmast ekki því sem fer fram í „góðu ríkii:
Það kosningaloforð að fólk ætti ekki að fá að byggja hús vegna trúar sinnar fellur á gæskuprófinu. Ríki sem hefði slíka stefnu væri ekki lengur gott ríki. Það gæti ekki lengur sagt fullum hálsi að það ynni að því að allir borgarar þess fengju að blómstra, óháð bakgrunni. Þess vegna eru skoðanir þeirra stjórnmálamanna sem slíkt bera á torg óásættanlegar.
Þeir leiðtogar slíkra flokka sem ýmist styðja þessa félaga sína með þögn eða skipta yfir í metaumræðu um „skaðsemi pólitísks rétttrúnaðar“ eru huglitlir og ekki tækir til að stjórna ríki. Ekki góðu ríki. Því góðu ríki má ekki vera stýrt af fólki sem fellur á gæskuprófinu. Fólki sem getur ekki lofað öllum sínum borgurum að það muni tryggja rétt þeirra til að reyna að blómstra. Án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Eins og segir í stjórnarskránni.
Köld áminning dagsins: Við erum aldrei lengra en tvennum þingkosningum frá því að verða fasistaríki.
Tvennar þingkosningar. Það var það sem þurfti í Þýskalandi. Þar voru blórabögglarnir gyðingar. Þeir höfðu reist bænahús, sýnagógur, á tíma keisarans og Weimarlýðveldisins. Nasisminn kastaði endanlega grímunni þegar farið var að brjóta í þeim glugga og brenna þær.
Kristalsnóttinn í Þýskalandi 1938. Bænahús gyðinga voru brennd og eyðilögð.