Simon Black skrifar um Ísland á vinsælu bloggi sem nefnist Sovereignman – greinin heitir hvorki meira né minna en:
„Wow. This story about Iceland’s recovery is a complete lie.“
Íslenski efnahagsbatinn er algjör lygi, segir Black.
Hann segir að ein lygin sé að Íslendingar hafi fangelsað bankamenn en bjargað almenningi.
En hversu langa dóma fái menn fyrir að draga efnahag heillar þjóðar niður í svaðið?
10 ár? 30 ár? Nei, 9 mánuði, þar af 6 skilorðsbundna.
Íslenska ríkið hafi líka tekið á sig mjög miklar skuldir þegar það þurfti að bjarga sjálfum Seðlabanka þjóðarinnar.
Það sé dálítið öðruvísi en annars staðar.
Nú þurfi íslenska ríkið að borga 17,3 prósent af tekjum sínum í vexti. Þetta séu líka raunverulegir peningar – sem þarf að greiða í beinhörðum gjaldeyri.
Þannig hafi íslensku þjóðinni ekki verið bjargað (bail-out). Hún hafi setið uppi með reikninginn.
Atvinnuleysi sé ekki mikið, en launin afar lág. Og verðbólga hefur geisað vegna hins veika gjaldmiðils.
Black nefnir húsnæðismarkaðinn þar sem greiðslubyrðin fari enn hækkandi meðan virði húsnæðisins lækkar. Þetta sé varla til marks um efnahagsbata.
Hann segir frá því að nýr forsætisráðherra vilji stofna sérstakan sjóð til að lækka húsnæðisskuldir.
Vandinn sé að ekki séu til peningar til þessa – eins og staðan er sé halli á fjárlögum á hverju ári.
Eina leiðin til að þetta sé framkvæmanlegt sé ef Ísland stendur ekki við skuldbindingar sínar. Vegna gjaldmiðilsins sé Ísland afar einangrað í vandræðum sínum.
Undir lok greinarinnar segir að ekki sé hægt að breiða yfir hrun af stærðargráðu þess íslenska með auglýsingamennsku. Þvert á það sem hefur verið sagt í stórum fjölmiðlum, sé Ísland ekki dæmi um eftirbreytniverðan efnahagsbata. Þetta sé fremur saga um hvernig sé hægt að plata fólk.