„Ég veit ekki hvort að ég haldi áfram bara í fótbolta. Þetta gæti mögulega verið minn síðasti leikur næstu helgi. Ég veit ekki alveg hvað framhaldið ber í skauti sér,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson miðjumaður Vals í samtali við Fótbolta.net um helgina.
Þessi 35 ára gamli leikmaður hefur þar með opnað dyrnar fyrir því að leggja skóna á hilluna. Gylfi er að klára sitt fyrsta tímabil á Hlíðarenda.
Gylfi gerði tveggja ára samning við Val þegar hann samdi við liðið í vor. Tímabilið á Hlíðarenda hefur verið vonbrigði en Gylfi hefur átt góða spretti í Bestu deildinni.
Samkvæmt heimildum 433.is er klásúla í samningi Gylfa sem gerir honum kleift að fara erlendis en borga þyrfti fyrir kappann. Þá hefur Gylfi verið orðaður við Víking og uppeldisfélag sitt FH.
Í september opnaði Gylfi á það að fara aftur erlendis og spila. Hljóð hefur því breyst á nokkuð stuttum tíma. „Ég þarf að setjast niður núna og spá í framtíðina, tímabilið endar í október og það eru leikir í nóvember og mars. Ég þarf að aðeins að setjast niður og spá í þetta, maður er í fótbolta til að spila fyrir Ísland. Ég þarf að vera í toppstandi,“ sagði Gylfi Þór við 433.is í september þegar hann var í verkefni landsliðsins. Hefur hann ver opinn með það að landsliðið sé ástæða þess að hann er áfram í fótbolta.
Gylfi var ónotaður varmaður í tapi Íslands gegn Tyrkjum fyrir viku síðan og lék aðeins örfáar mínútur gegn Wales þar á undan.
Þarf Gylfi að skoða það að fara erlendis eftir áramót ef hann vill halda sér í landsliðinu? „Ég veit það ekki, planið var að komast í stand og spila leiki. Að vera verkjalaus sem er staðan núna. Maður þarf að plana veturinn til að vera í besta standinu ef maður er í hópnum í mars.“
Viðtalið frá því í september: