„Þetta er allt það sem við upplifum, með píkunum okkar,“ segir leikstjóri sýningarinnar
„Þetta er allt það sem við upplifum, með píkunum okkar. Allt það frábæra – og hræðilega sem við og þær getum lent í,“ segir Guðrún Helga Sváfnisdóttir, leikstjóri sýningarinnar Píkusögur sem sýnd verður í Gamla bíói í næstu viku. Allur ágóði sýningarinnar rennur til Kvennaathvarfsins, og allir sem koma að sýningunni gefa vinnu sína.
Aðstandendur sýningarinnar eru þær Guðrún Helga, sem er leikstjóri, og leikkonurnar Vanessa Andrea Terrazaz, Guðrún Bjarnadóttir, Sigríður Björk Sigurðardóttir, Monika Ewa Orlowska og Jóhanna Lind Þrastardóttir.
Leikhópurinn sýndi leikritið í september og rann þá ágóðinn til Stígamóta. „Við höfum allar þurft að sækja okkur aðstoð Kvennaathvarfsins og Stígamóta. Þess vegna völdum við þetta – við viljum gefa til baka,“ segir Guðrún Helga, en þegar Píkusögur eru sýndar ber aðstandendum að láta gott af sér leiða og láta ágóða sýninganna renna til kvennasamtaka eða málefna kvenna. Höfundur Píkusagna, Eve Ensler, stofnaði V-dags samtökin sem hafa það að markmiði að vinna gegn ofbeldi á konum.
Þess vegna völdum við þetta – við viljum gefa til baka.
„Við nálgumst þetta með minimalískum hætti. Þær eru einar á sviðinu og flytja hver um sig tvær einræður. Við viljum leyfa verkinu að standa sjálft,“ segir Guðrún Helga sem segir að verkið sé eitt mikilvægasta og pólitískasta leikverk síðustu ára.
Leikhópurinn sýndi verkið, sem áður sagði, í september. „Þá var ein leikkonan komin á steypirinn og við ákváðum að bíða aðeins með næstu sýningu þess vegna,“ segir Guðrún Helga, en þær vona að þær geti einnig sýnt verkið á landsbyggðinni á næstu mánuðum. „Við tökum þetta eina sýningu í einu.“ Píkusögur verða sýndar þann 4. apríl í Gamla bíói og aðeins sú eina sýning.