Wayne Rooney hefur ekki áhuga á að þjálfa á Englandi í bili og er aðeins með eitt markmið og það er að halda til Sádi Arabíu.
Það eru enskir miðlar sem greina frá þessu en Rooney er án starfs þessa stundina eftir að hafa yfirgefið Birmingham.
Birmingham tók þá ákvörðun að reka Rooney eftir slæmt gengi í næst efstu deild Englands en ákvörðunin var tekin í síðasta mánuði.
Rooney ku nú vera að eltast við starf í Sádi þar sem miklir peningar eru í boði en ekkert lið er nefnt til sögunnar að svo stöddu.
Rooney er 38 ára gamall og hefur þjálfað þrjú lið á sínum ferli, Derby, DC United og svo Birmingham.
Það verður fróðlegt að sjá hvort Rooney fái starf í Sádi en hann vann aðeins tvo leiki af 15 sem stjóri Birmingham á þessu tímabili.