Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, hefur skotið föstum skotum að bæði Xavi og Joan Laporta sem vinna fyrir Barcelona.
Xavi lét ansi athyglisverð ummæli falla fyrr í vikunni, stuttu eftir að Laporta tjáði sig um sama mál tengt einmitt Real.
Þeir báðir vilja meina að Real sé með dómarana á Spáni á sínu bandi en Ancelotti neitar svo sannarlega að taka undir þau ummæli.
Ítalinn segir að atvinnumenn láti ekki svoleiðis ummæli falla og segir að þau vanvirði spænsku deildina í heild sinni.
,,Ég er atvinnumaður og sem atvinnumaður þá vil ég ekki vanvirða spænsku deildina á sama hátt og þeir,“ sagði Ancelotti.
,,Ekki spyrja mig nánar út í þetta því ég vil ekki tala um deildina á sama hátt, það er ekki fyrir atvinnumenn.“