„Við fráfall Trausta Haraldssonar sér Fram á bak góðum, traustum og einum af bestu knattspyrnumönnum félagsins í gegnum tíðina,“ segir meðal annars í minningargrein Framara um Trausta.
Trausti vakti mikla athygli ungur að árum og var farinn að spila með aðalliði Fram strax 18 ára. Hann varð þá bikarmeistari með liðinu 1979 og 1980, en það ár var hann krýndur „Besti leikmaður Íslandsmótsins“ hjá Morgunblaðinu.
Trausti æfði jafnframt með hollenska liðinu Utrecht og þýska liðinu Hertha Berlin um tíma en ákvað að koma heim þrátt fyrir að síðarnefnda liðið hafi viljað halda honum lengur.
Kappinn lék 20 landsleiki fyrir Íslands hönd. Sá fyrsti var gegn Vestur-Þjóðverjum á Laugardalsvelli 1979 og sá síðasti kom gegn Noregi 1984.
Það kom mörgum á óvart þegar Trausti lagði skóna á hilluna 1984, aðeins 27 ára gamall.
„Var ávallt ljúfur drengur, léttur í lund og mikill húmoristi. Það var kátt í kringum Trausta,“ segir einnig á heimasíðu Fram, en greinina í heild má lesa hér.