Knattspyrnugoðsögnin Gianluigi Buffon lagði til að mörk í íþróttinni yrðu stækkuð í viðtali á dögunum.
Ítalinn lagði skóna á hilluna í sumar. Hann spilaði lengst af með Juventus en einnig Parma og Paris Saint-Germain.
„Ég var að ræða þetta við eiginkonu mína og skyldmenni á dögunum. Þegar ég hóf ferilinn 1998 var ég á meðal hæstu leikmanna Serie A. En á síðasta ári, þegar ég var að spila með Parma í Serie B, var ég á meðal þeirra fimm stærstu af 22 leikmönnum á vellinum,“ sagði Buffon á dögunum.
„Við ættum að fara að hugsa út í þetta (stærðina á mörkum). Stærð marka var ákveðin 1875. Það var örugglega rétt stærð þá en að sjá leikmenn og markverði í dag fær mann til að hugsa.“
Buffon hélt áfram og rökstuddi sitt mál.
„Fyrir 30 árum voru skoruð tíu mörk úr hverjum 50 skotum. Í dag eru það þrjú.“