Þrjár hugrakkar konur í Ástralíu afsöluðu sér rétti sínum til nafnleyndar til að valdefla þolendur barnaníðs eftir að stjúpfaðir þeirra, sem beitti þær ofbeldi árum saman, var loksins látinn svara fyrir brot sín.
„Hann sýndi ekki minnsta vott um eftirsjá,“ sagði hin 37 ára gamla Riye Arai-Coupe um stundina sem hún mætti geranda sínum í dómsal. John Richard Daniel Voronoff var á dögunum dæmdur í sjö og hálfs ára fangelsi fyrir að hafa misnotað fjórar ungar stúlkur þegar þær væru á 3-9 ára gamlar. Riye var ein þessara stúlkna ásamt systur sinni Miku og vinkonu þeirra, Ebony-Rose Greene. Þær þrjár hafa nú afsalað sér lögbundnum rétti sínum til nafnleyndar og stigið fram með sögu sína.
Þær voru allar þrjár í umsjá Voronoff, sem á þessum tíma var á fimmtugs- og sextugsaldri, þegar hann misnotaði þær á árunum 1989-2002. Þær deildu sögu sinni með news.com.au.
Riye segir að hún hafi séð myrkur og kulda þegar hún leit í augu kvalara síns í dómsalnum, rúmlega 20 árum eftir að hann braut gegn henni þegar hún var aðeins barn að aldri. Voronoff var stjúpfaðir hennar og misnotaði hana frá því að hún var 7 ára gömul allt þar til hún var 11 ára.
„Barnaníð er hrottalegt, því þegar þú ert svona ungur, þá gerir þetta eitthvað við sálarlíf þitt hvað varðar samviskubit og skömm. Þú þarft að lifa með þessu alla þína ævi.“
Riye segir að þögnin hafi nagað hana að innan og hún hafi haft líkamlega þörf til að afhjúpa stjúpföður sinn, en hún óttaðist þó hvaða áhrif það myndi hafa á hana andlega eftir að heyra hryllingssögur þolenda sem aldrei nutu sannmælis fyrir dómstólum.
„En það blundaði alltaf í mér, þessi þörf til að gera eitthvað.“
Þessi þörf hafi orðið óttanum yfirsterkari þegar dóttir hennar varð sjö ára, á sama aldri og Riye var þegar martröðin hófst. Hún leit á dóttur sína og sá þar barnslegt sakleysið og grundvallar þörf barnsins fyrir ást og stuðning. Hún gat ekki lengur þagað.
„Það komu kvöld þar sem ég horfði á hana og brotnaði saman og ég bara gat ekki ímyndað mér að hún þyrfti að ganga í gegnum sambærilegt. Og þá, meðvituð um að hann væri enn þarna úti, þá fann ég fyrir þessari sekt – eins og það væri mér að kenna að hann væri enn frjáls.“
Hún fann þarna hugrekkið til að horfast í augu við fortíðina og sársaukann og tilkynnti brotin til lögreglu árið 2021. Það gat þó ekkert undirbúið hana fyrir að þurfa að mæta kvalara sínum aftur.
„Í bernsku minni var hann mjög sóðalegur maður, en þessi maður sem við hittum fyrir í dómshúsinu var nýrakaður – aldraður, og í skyrtu. Hann leit út eins og hver annar afi sem þú sérð úti á götu. Og mér varð hreinlega óglatt að vita um allan viðbjóðinn sem hann hafði gert í gegnum árin og hversu auðveldlega hann gat fallið inn í hópinn, bara eins og venjulegur maður.“
Hún var þó ekki hrædd við hann. Fyrir dómi las hún upp yfirlýsingu um hvaða áhrif brot Voronoff hefðu haft á hana, þar á meðal bréf sem hún skrifaði barninu í sjálfri sér.
„Það brýtur í mér hjartað að vita hvað þú varst ung þegar þú þurftir að læra að lifa með leyndarmál og í myrkrinu, þegar lífið hefði átt að einkennast af ást og birtu. Það hryggir mig að vita hversu lengi þú þurftir að lifa með sársaukanum, sektinni og áfallinu, og ég vildi óska þess að þú hefðir aldrei þurft að fara sködduð út í lífið og tapað getunni til að treysta öðrum.“
Hún segir að það hafi verið gífurlega valdeflandi að horfa á kvalara sinn leiddan burt í járnum. En ekkert geti þó bætt henni þann skaða sem hann olli henni.
Með því að stíga fram vonast Riya, Mika og Ebony-Rose, til þess að valdefla aðra sem urðu fyrir kynferðisofbeldi sem börn. Að þau þekki rétt sinn til að stíga fram og að þau sjái að þau geti barist fyrir réttlætinu. Það sé þó ekki veikleikamerki að kjósa að stíga ekki fram.
„Stundum finnur fólk ekki styrkinn eða viljann til að gera slíkt. En í okkar tilfelli – að deila sögu okkar, það er fyrir allar konurnar þarna úti sem hafa ekki átt sér talsmann til þessa.“
Fyrir dómi var því lýst hvernig Voronoff, sem er 77 ára gamall, grúmaði og misnotaði stjúpdætur sínar og vinkonu þeirra árum saman þegar þær voru á aldrinum 3-12 ára.
Ebony-Rose lýsti því fyrir dómi að hún glímir við áfallastreitu, alvarlegt þunglyndi og kvíða vegna brotanna. Hún hafi einnig upplifað mikla skömm og niðurlægingu. Hún hafi verið á fjórða ári þegar ofbeldið hófst.
„Heilinn minn var rétt að byrja að mynda persónuleikann minn og ég var rétt að byrja að skilja heiminn. Foreldrar mínir voru nýskilin. Voronoff sagði mér að skilnaðurinn væri mér að kenna og ég mætti aldrei segja neinum frá – sérstaklega ekki mömmu.“
Voronoff játaði á sig 24 brot gegn stúlkunum fjórum, en fyrst og fremst játaði hann óviðeigandi framkomu gegn börnum yngri en 12 ára. Hann á rétt á reynslulausn árið 2026.
Dómarinn í málinu sagði að Voronoff hefði gott af því að verja næstu árunum í fangaklefa að hugsa sinn gang og hvaða afleiðingar brot hans hafa haft. Hvert og eitt einasta barn eigi rétt á líkamlegu sálfræði og réttinn til að tjá kynferði sitt á sínum eigin forsendum. Þessum rétti hafi Voronoff svipt þolendur sína. Hann hafi misnotað yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunum, og trúnað þeirra, og svipt þær æskunni.