Guðlaugur Victor Pálsson sagði frá miður skemmtilegu atviki á ferli sínum í viðtali við Hjörvar Hafliðason í Dr. Football.
Þar ræddi íslenski landsliðsmaðurinn atvik sem upp kom er hann var leikmaður Hibernian í Skotlandi.
„Ég var kominn með það orðspor að vera ekki alveg með hausinn rétt skrúfaðan á. Því miður,“ sagði Guðlaugur Victor.
Það kom upp athyglistvert atvik á bar í Edinborg er kappinn var um tvítugt.
„Ég var í blackouti og pissaði við hliðina á DJ-básnum. Dyravörðurinn henti mér út og ég fékk sex mánaða bann frá öllum næturklúbbum í Edinborg,“ sagði Guðlaugur Victor.
„Það er eitthvað sem ég er ekki stoltur af.“
Hann var ekki á góðum stað á þessum tíma.
„Ég var svolítið villtur og týndur. Þetta var mín leið til að flýja raunveruleikann, að leita í áfengið þegar ég fékk að kynnast hvað það gerði fyrir mig.“
Í dag leikur Guðlaugur Victor með DC United í Bandaríkjunum. Hann hóf atvinnumannaferilinn í akademíum AGF og Liverpool. Einnig hefur hann verið á mála hjá New York Red Bulls, NEC, Helsingborg, Esbjerg, Zurich, Darmstadt og Schalke.