Forráðamenn Barcelona óttast það að endurkoma Lionel Messi til félagsins verði ekki að veruleika. Frá þessu segja spænskir miðlar.
Í gær var greint frá því að Messi væri langt kominn í viðræðum við Inter Miami um að fara í MLS deildina næsta sumar.
Þá rennur samningur Messi við PSG út en sumarið 2021 fór Messi frítt frá Barcelona til PSG.
Barcelona á sér þann draum að fá þennan 35 ára gamla leikmann aftur heim en Sport á Spáni segir að Messi sé hættur að svara félaginu.
Þannig segir Sport að nánustu samstarfsmenn Joan Laporta, forseta Barcelona hafi ítrekað reynt að ná á Messi en hann svarar ekki.
Messi er sagður heillast af því að fara til Miami og njóta síðustu ára ferilsins í borginni sem iðar af lífi.