Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United, segir að þrátt fyrir rifrildi þeirra á milli, sé samband hans og Wayne Rooney gott og traust. Rooney lét gamminn geisa á góðgerðarkvöldverði í Manchester um helgina þar sem að hann talaði tæpitungulaust en á góðum nótum um nokkra af fyrrum og núverandi leikmönnum Manchester United.
,,Rio er frábær leikmaður en mjög hrokafullur. Maður fær mikið borgað hjá Manchester United fyrir það að sparka boltanum í netið. Ég sagði við Rio: ‘Sinntu þínu hlutverki, láttu mig fá boltann, láttu Ronaldo fá boltann. Rio er frábær náungi en hann átti það til að gleyma því að hann er varnarmaður,“ lét Wayne Rooney hafa eftir sér.
Í nýjasta þætti Vibe with Five, var Rio spurður út í þessi ummæli Rooneys.
,,Hann er að vísa til þess að þegar að við spiluðum saman á knattspyrnuvellinum áttum við það til að rífast og það nokkuð oft. Við keyrðum hvorn annan áfram. Við vorum liðsfélagar í einhver 10 – 12 ár og það hefur mikið gerst okkar á milli en samband okkar hefur alltaf verið gott og traust.“