Ásgeir Galdur Guðmundsson hefur skrifað undir hjá FC Kaupmannahöfn. Þessi 15 ára Bliki hafði verið eftirsóttur. Þetta herma öruggar heimildir 433.is.
Samkvæmt sömu heimildum 433.is fær Breiðablik tugi milljóna fyrir þennan unga dreng. Ásgeir Galdur er miðjumaður sem hefur verið hluti af meistaraflokki Blika í vetur.
Óvíst er hvort Ásgeir hafi félagaskipti til FCK strax en það ætti að koma betur í ljós á allra næstu dögum.
FCK sem er stærsta félag Danmerkur horfir mikið til Íslands en fyrir hjá félaginu eru Andri Fannar Baldursson, Hákon Arnar Haraldsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og Orri Steinn Óskarsson.
Breiðablik hefur undanfarin ár verið með mjög öflugt unglingastarf og hefur það skilað sér í því að félagið hefur selt út marga unga leikmenn.
Ásgeir Galdur lék sinn fyrsta leik í efstu deild karla síðasta sumar en hann verður 16 ára í apríl. Hann á að baki fjóra leiki fyrir U17 ára landlið Íslands.