Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ er farin í leyfi frá störfum. Þetta hefur Vísir eftir Óskari Erni Guðbrandssyni á samskiptadeild KSÍ. Vísaði hann á fulltrúa stjórnar fyrir frekari upplýsingar.
Gustað hefur um Klöru og stöðu hennar innan KSÍ undanfarna daga vegna ásakana um að stjórnarfólk innan KSÍ, þar með talið Klara, hafi vitað af alvarlegum ofbeldisásökunum í lengri tíma án þess að aðhafast.
Guðni Bergsson sagði af sér síðustu helgi og öll stjórn KSÍ fylgdi svo fast á eftir. Stjórn KSÍ situr þó áfram fram að auka aðalfundi sem boðað verður til eftir nokkrar vikur.
Klara sagði í kjölfar afsagnar stjórnar og Guðna að hún væri ráðinn starfsmaður KSÍ og ætlaði sér ekki að segja af sér með sama hætti og aðrir. Sagðist hún því ætla að halda áfram sem framkvæmdastjóri.
DV hefur reynt að ná í Klöru frá því fyrr í dag en án árangurs.