Tólfan, stuðningssveit knattspyrnulandsliða Íslands, hefur ákveðið að syngja hvorki söngva né hrópa hvatningarorð fyrstu 12 mínútur í leik Íslendinga og Rúmena í undankeppni HM á fimmtudagskvöldið. Tólfan ætlar bæði að sýna þolendum ofbeldis og landsliðinu stuðning á leiknum, eins og kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu sveitarinnar.
Þar segir meðal annars:
„Fram að 12.mínútu leiksins mun Tólfan sitja og engir söngvar koma frá stúkunni, þeir sem kjósa og eiga, bera bönd Bleika Fílsins og vera með F O húfur á komandi leikjum og hvetjum við þá sem eiga slíkt að koma með á leikinn. Einnig var ákveðið að skella í einn borða með stuðningsyfirlýsingu til þolenda. Einnig munum við taka samtalið við KSÍ og koma okkar skoðunum á framfæri við þau.
Vonar Tólfan að með þessu verði skapaður grunnur að nýju upphafi, nýju jákvæðara samfélagi.
Með því skorar Tólfan á þjóðina alla að mæta á völlinn og styðja við liðið.“
Tanja Ísfjörð, ein talskona baráttuhópsins Öfgar, er ánægð með þessa afstöðu Tólfunnar og skrifar eftirfarandi athugasemd við færsluna: „Takk fyrir ykkar stuðning.“
Í stuttu spjalli við DV sagði Tanja: „Við erum þakklátar öllum stuðning sem við höfum fengið seinustu daga. Verum breytingin sem við viljum sjá í heiminum.“