Sean Dyche stjóri Burnley er verulega óhress með Jurgen Klopp stjóra Liverpool og fullyrðingar hans um að leikmenn Burnley séu hreinlega grófir.
Klopp var óhress með það hvernig Burnley spilaði gegn Liveprool um liðna helgi þar sem lærisveinar Klopp unnu 2-0 sigur.
Að leik loknum fór Klopp að gagnrýna þá Ashley Barnes, Chris Wood og Josh Brownhill, hann sagði þá spila of fast. Hann gagnrýndi það hversu mikið Burnley komst upp með í leiknum.
„Það sem pirrar mig er að hann er að nafngreina leikmann, það er algjör óþarfi. Við erum að tala um atvinnumenn sem hafa lagt mikið á sig til að ná hingað,“ sagði pirraður Sean Dyche.
„Það sem hann segir um þessar tæklingar er í fyrsta lagi rangt, þetta er óviðeigandi og ég myndi aldrei fara út í svona hluti.“
„Það sem vekur hjá mér áhyggjur er að hann sagði að lið ættu ekki að ganga eins langt og dómarinn leyfir. Það er það sem við gerðum því við fengum ekki eitt einasta gula spjald.“
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley í leiknum en liðið er án stiga eftir tvo leiki.