Breiðablik tók á móti KA í 18. umferð Pepsi Max deildar karla í kvöld. Leiknum lauk með 2-0 sigri Blika en Gísli Eyjólfsson og Viktor Karl Einarsson skoruðu mörkin. KA vildi fá vítaspyrnu í leiknum og var dómari leiksins, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson fenginn í viðtal eftir leik á Stöð 2 Sport þar sem hann fékk að sjá atvikið.
„Upplifun mín af atvikinu í leiknum var sú að ég sé þá koma saman og sé Breiðabliks-manninn taka boltann, hafandi séð þetta þarna virðist KA-maðurinn hafa komist í boltann aðeins á undan,“ sagði Vilhjálmur við Stöð 2 Sport.
„Blikamaðurinn fer augljóslega í KA-manninn en mér fannst í leiknum að Blikinn hefði farið í boltann. Hafandi séð þetta lítur þetta öðruvísi út fyrir mér og hefði ég verið með þetta sjónarhorn gæti eitthvað annað hafa gerst,“ sagði Vilhjálmur við Stöð 2 sport.
Mikið var rætt um atvikið á samfélagsmiðlum og margir ósáttir við dómgæsluna í þessu atviki.
Klárt víti sem KA átti að fá. VAR verður að koma strax í boltann.
— Hjörvar Hafliðason (@hjorvarhaflida) August 21, 2021