Arsenal nálgast samkomulag við Real Madrid um kaup á Norðmanninum Martin Ödegaard. The Athletic greinir frá.
Hinn 22 ára gamli Ödegaard æfði ekki með Real í dag vegna yfirvofandi félagaskipta. Hann var þá ekki með liðinu í 4-1 sigri gegn Alaves um helgina.
Norski landsliðsmaðurinn eyddi seinni hluta síðustu leiktíðar á láni hjá Arsenal frá spænska félaginu. Þá lék hann 20 leiki og skoraði tvö mörk.
Þrátt fyrir að Ödegaard hafi verið á mála hjá Real frá árinu 2015 þá hefur hann aðeins spilað átta deildarleiki fyrir spænska félagið. Hann hefur verið sendur út á lán til Heerenveen, Vitesse, Real Sociedad og nú síðast, Arsenal.
Ödegaard á 30 landsleiki að baki fyrir Noreg. Hann var til að mynda fyrirliði þjóðar sinnar í síðasta landsleikjaverkefni fyrr í sumar.