Ole Gunnar Solskjær stjóri Manchester United vill að félagið framlengi samninga við fimm af lykilmönnum félagsins. Ensk blöð segja frá þessu.
Solskær vonast til þess að United geti framlengt samninga við Bruno Fernandes, Harry Maguire, Marcus Rashford og Luke Shaw á næstunni.
Þá segja ensk blöð að Ole Gunnar sé enn vongóður um að Paul Pogba sé klár í að framlengja við félagið. Pogba verður samningslaus eftir tíu mánuði og staðan er því snúin.
Fernandes á fimm ár eftir af samningi sínum en er með 100 þúsund pund á viku sem er ekki mikið fyrir mann í hans gæðaflokki. Hann gæti fengið 250 til 300 þúsund pund á viku á nýjum samningi.
Rashford, Maguire og Shaw þéna allir um 200 þúsund pund á viku og gætu fengið hækkun. Rashford og Shaw eiga tvö ár eftir af samningi sínum með möguleika á ári til viðbótar, Maguire er með samning til 2025.
Solskjær vill tryggja það að leikmannahópurinn sé klár í næstu árin og vonast hann til að koma United aftur í fremstu röð.