Jamie Redknapp telur að Liverpool eigi að reyna allt sem þeir geta til að semja við Youri Tielemans, miðjumann Leicester, ef þeir vilja keppa um titilinn í ensku deildinni í vetur.
Liverpool hóf tímabilið í ensku úrvalsdeildinni af krafti í gær en liðið vann 3-0 sigur á Norwich. Diogo Jota, Roberto Firmino og Mo Salah skoruðu mörkin.
Georginio Wijnaldum yfirgaf félagið eftir síðasta tímabil og skildi eftir sig stórt skarð á miðju Liverpool. Jamie Redknapp, fyrrum leikmaður Liverpool, telur að Liverpool verði að sækja miðjumann ef félagið ætlar sér að keppa um titilinn. Hann telur að Youri Tielemans sé besti kosturinn í þá stöðu.
„Það var afar vont að missa Wijnaldum, og ég er ekki viss um að þeir geti fengið leikmann í staðinn fyrir hann,“ sagði Redknapp.
„Ég myndi reyna að sækja Tielemans. Hann er týpan til þess að spila fyrir félagið. Þeir þurfa að bæta við manni ef þeir ætla í titilbaráttu.“