Barcelona hefur aðeins tekist að selja rúmlega helming þeirra miða sem eru fáanlegir fyrir fyrsta leik tímabilsins gegn Real Sociedad í kvöld.
Samkvæmt tölum spænska blaðsins AS frá því á föstudag hefur Barcelona aðeins selt 15.820 miða á völlinn. 30 þúsund miðar eru til sölu. Nývangur, heimavöllur Katalóníustórveldisins, tekur tæplega 100 þúsund manns í sæti. Aðeins er þó hluti af þeim til sölu vegna kórónuveirufaraldursins.
Ekkert var um áhorfendur á síðustu leiktíð af sömu ástæðu. Því var búist við því að menn yrðu æstir að mæta á völlinn nú.
Það virðist þó vera takmarkaður áhugi á Barcelona þessa stundina. Þar spilar brottför Lionel Messi án efa rullu.
Eins og nær allir vita fór Messi til Paris Saint-Germain á frjálsri sölu á dögunum.
Argentínumaðurinn hafði verið hjá Barcelona frá aldamótum og hafði áhuga á að vera áfram. Félagið er hins vegar í miklum fjárhagserfiðleikum og gat ekki endursamið við hann.