Það bárust fréttir frá Liverpool í dag þess efnis að fjórir lykilleikmenn liðsins eru á batavegi. Þeir Joe Gomez, Virgil van Dijk, Joel Matip og Trent Alexander-Arnold eru allir byrjaðir að æfa með hópnum. Bæði Joe Gomez og Virgil van Dijk voru frá bróðurpart tímabils í fyrra en Gomez fór í aðgerð á hné í nóvember síðastliðnum.
Jurgen Klopp sagði í viðtali við Liverpoolfc.com að staðan væri ólík hjá mismunandi leikmönnum en að það hafi ekki orðið neitt bakslag. „Ekkert. Þeim vegnar vel. Málið er að strákarnir eru ekki meiddir lengur, þeir eru bara ekki búnir að ná sér að fullu. Það eru yfirleitt einhver bakslög, en engin hingað til. Hvorki hjá Joe, Virgil, eða neinum öðrum. Þeir eru allir í góðu standi.“
Undirbúningstímabil Liverpool hefst á þriðjudaginn með tveimur 30 mínútna leikjum gegn FC Wacker Innsbruck og VfB Stuttgart, áður en þeir mæta FSV Mainz 05 á föstudag.
Klopp sagði að þeir væru allir komnir mislangt á batavegi.
„Þeir eru allir á ólíkum stað,“ sagði Klopp. „Ég held það sé engin spurning að Joel muni spila á þriðjudaginn. Trent ætti að geta það en ég þarf að ræða það við læknateymið. Kannski er það of snemmt.“