Frá og með tímabilinu 2022 til 2023 verður liðum í efstu deild Ítalíu, Serie A, meinað að leika í grænum búningum.
Þetta er gert vegna þess að sjónvarpsrétthafar á deildinni hafa áhyggjur af því að græni liturinn á búningum falli inn í þann græna lit sem er á grasfleti vallanna.
Félög fá eitt tímabil í viðbót til þess að leika í grænum treyjum, kjósi þau að gera svo, áður en reglan tekur gildi.
Sassuolo er eina lið deildarinnar þar sem grænn er í lykilhlutverki í aðaltreyju félagsins. Þeirra búningur er einnig svartur. Það er ekki ljóst hvaða áhrif þetta mun nákvæmlega hafa á þeirra lið.
Þá eru einnig lið sem hafa teflt fram grænum varatreyjum, til að mynda Lazio á síðustu leiktíð.