Gestur sem fór miðalaus inn á Wembley á úrslitaleik Evrópumótsins á sunnudag hefur viðurkennt að hann hafi mútað öryggisverði til að komast inn. Maðurinn ræddi við Guardian.
Það skapaðist mikil ringulreið fyrir utan Wembley fyrir úrslitaleikinn. Þar var allt of mikið af fólki samankomið, fjöldi fólks var ekki með miða á völlinn en ætlaði sér samt inn. Á endanum komst nokkur fjöldi inn á völlinn án miða.
Maðurinn sem ræddi við Guardian segir að hægt hafi verið að múta sumum öryggisvörðum fyrir allt niður í 20 pund (um 3500 íslenskar krónur).
,,Settu peninginn í vasann minn á meðan ég leita á þér,“ á einn öryggisvörður að hafa sagt við manninn sem um ræðir. Sá borgaði 120 pund (rúmar 20 þúsund íslenskar krónur).
Málið þykir auðvitað grafalvarlegt, enda erfitt að hafa hemil á hlutunum þegar ekki einu sinni þeir sem vinna við það sinna hlutverki sínu.