Dinamo Zagreb kallaði nokkra af sínu bestu leikmönnum til baka úr fríi til að taka þátt í seinni leiknum gegn Val í gær í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Dinamo bjóst líklega við að valta yfir einvígið og því voru bestu leikmenn liðsins í fríi – þar sem margir af þeim tóku þátt í Evrópumótinu með landsliðum sínum – í fyrri leiknum í Króatíu fyrir viku.
Það fór þó ekki betur en svo fyrir Dinamo að liðið sigraði Val aðeins 3-2 í fyrri leiknum.
Því var ákvðeið að kalla bestu leikmennina til baka. Mario Gavranovic, sem skoraði jöfnunarmark Sviss gegn Frökkum í 16-liða úrslitum EM, var til að mynda kallaður til baka. Þá voru króatísku landsliðsmennirnir Bruno Petkovic, Luka Ivanusec og Mislav Orsic einnig kallaðir úr fríi til að mæta á Hlíðarenda í gær.
Þeim tókst að vinna seinni leikinn í 0-2 og einvígið því samanlagt 5-2.
,,Í þeirra rosalegustu draumum þá voru þeir aldrei að fara að spila í þessu einvígi. Eins og Rikki (Ríkharð Óskar Guðnason) segir, þeir bara lentu í veseni í restina á síðasta leik og voru bara kallaðir til að spila þennan leik,“ sagði Mikael Nikulásson í hlaðvarpsþættinum The Mike Show.
Mikael bætti við að það hefði verið algjör skandall fyrir Dinamo að detta úr leik gegn Val í gær.
,,Þeir hefðu farið í Conference League (Sambandsdeildina) ef þeir hefðu tapað þessu fyrir Val. Þeir hefðu bara verið fangelsaðir þarna í Króatíu.“
Lið Dinamo er virkilega sterkt og telur Mikael þá geta farið langt í Meistaradeildinni.
,,Þetta er lið sem getur mögulega komist í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.“