Ítalska félagið Lecce hefur áhuga á því að fá miðjumanninn Þóri Jóhann Helgason frá FH. Þetta kemur fram á Fótbolta.net.
Samningur hins tvítuga Þóris við Fimleikafélagið rennur út eftir tímabilið. Hann hefur verið orðaður við bæði Val og Breiðablik.
Miðað við nýjustu fregnir gæti hann hins vegar verið á leið til útlanda.
Þórir hefur verið hjá FH síðan 2018. Hann kom þangað frá Haukum, þar sem hann er uppalinn.
Brynjar Ingi Bjarnason gekk í raðir Lecce á dögunum frá KA. Möguleiki er á að hann og Þórir verði liðsfélagar á Ítalíu á næstu leiktíð.
Báðir léku þeir sína fyrstu A-landsleiki fyrir Íslands hönd í vináttulandsleikjaglugga fyrr í sumar.