Nokkrir enskir stuðningsmenn krefjast þess nú að úrslitaleikur Evrópumótsins í knattspyrnu sem fram fór á Wembley í gær verði spilaður aftur.
England komst yfir strax í byrjun leiks með marki frá Luke Shaw en Ítalir jöfnuðu á 67. mínútu með marki frá Bonucci. Þá var gripið til framlengingar og loks vítaspyrnukeppni þar sem Ítalía hafði betur.
Enskir stuðningsmenn voru reiðir við Chiellini í framlengingunni en hann greip þá um hálsmálið hjá Bukayo Saka svo hann féll niður. Kappinn fékk gult spjald fyrir en margir kölluðu á að þetta væri rautt spjald. Nú hafa nokkrir stuðingsmenn gengið svo langt að búa til undirskriftarlista þar sem vonin er að UEFA láti endurtaka leikinn vegna þessa atviks.
Vilja stuðningsmenn meina að þarna hafi verið um klárt rautt spjald að ræða og leikurinn hefði spilast öðruvísi ef Ítalar hefðu verið einum færri. Vilja þeir að leikurinn verði endurtekinn með öðrum dómara.