Gísli Marteinn Baldursson fór á Twitter í dag og skrifaði þráð um það hvernig knattspyrnuleikmenn eru að breytast þegar kemur að afskiptum af pólitík.
Tengsl knattspyrnunnar og pólitíkur eru orðin ansi mikil. Undanfarið ár eða svo hafa leikmenn kropið á kné fyrir leiki til að sýna svörtum stuðning sinn. Þá má oft sjá leikmenn með fyrirliðabönd í regnbogalitunum, til styrktar hinsegin fólki, svo eitthvað sé nefnt.
,,Sjaldan eða aldrei hafa réttindamál og pólitík verið jafn áberandi í umgjörð keppninnar. Leikmenn eru ekki lengur vandræðalegir þegar rætt er um pólitík heldur taka þátt í kröfu um aukið frjálslyndi og jöfnuð. Regnbogafáninn og hnéð eru augljósustu dæmin,“ skrifaði Gísli.
Gísli segir þó að nýstárleiki knattspyrnumanna fari á mis við stóran hluta samfélaga, sem og stjórnmálafólks.
,,Þetta er umdeilt. Íhaldið og afturhaldið í Evrópu (og Íslandi) vill ekki þessa woke breytingu. Enskar bullur púuðu á liðið sitt og Boris og íhaldsfólkið í kringum hann sýndu þeim engan stuðning. Eru svo steinhissa núna að Saka, Rashford og Sancho verði fyrir kynþáttahatri.“ Bukayo Saka, Marcus Rashford og Jadon Sancho hafa því miður orðið fyrir kynþáttahatri síðan í gærkvöldi eftir að hafa klikkað á vítum sínum í vítaspyrnukeppni úrslitaleiks Evrópumótsins.
Gísli gagnrýndi þá evrópska knattspyrnusambandið, UEFA. Sambandið hafnaði til að mynda þeirri beiðni Þjóðverja um að fá að lýsa leikvang sinn í Munchen upp með regnbogalitunum fyrir leik gegn Ungverjum á EM.
,,Sama með afstöðu þjóðernisíhaldsins til hinsegin fólks. Meðvirkni og innbyggðir fordómar kallanna í UEFA og fjölda annarra í valdastöðum eru eldsneyti fyrir hatursglæpi. Hvernig sem við viljum þýða ‘woke’ þá þarf gott fólk allsstaðar að halda vöku sinni og taka afstöðu.“
Að lokum hrósaði Gísli þeim leikmönnum sem hafa verið að nýta vettvang sinn til að gera góðverk. Á sama tíma segir hann breytingarnar í boltanum geta verið erfiðar fyrir íhaldssama.
,,Fótboltamenn í enska boltanum hafa verið að stíga fram og verja mannréttindi og taka afstöðu: Rashford að snúa íhaldsstjórnina niður í matarmálum skólabarna, Bellerin að verja fóstureyðingar, Dier að tala gegn Brexit, Rose að opna umræðu um geðheilbrigði, Sterling og rasisminn. Þetta er nýr veruleiki og margir hörðustu aðdáendur boltans eru ráðvilltir. Skoðanirnar sem leikmennirnir eru að setja fram eru flestar ‘woke’, frjálslyndar, snúast um réttindamál. Skoðanir góða fólksins. Þetta er erfitt fyrir íhaldssama. En gott fyrir heiminn.“