Það var tekist á í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag um það hvort rétt hafi verið af enskum landsliðsmönnum að taka silfurpeninginn af sér eftir tapið í úrslitaleik Evrópumótsins í gær.
Eins og flestir vita þá mættust England og Ítalía í úrslitaleik EM í gærkvöldi. Luke Shaw kom þeim ensku yfir strax á 2. mínútu en Leonardo Bonucci jafnaði leikinn um miðjan seinni hálfleik.
Ekki var hægt að skera úr um sigurvegara í venjulegum leiktíma eða framlengingu. Ítalía vann svo í vítaspyrnukeppni.
Margir leikmenn enska landsliðsins rifu af sér silfurpeninginn sem þeir fengu afhentan eftir leik. Arnar Sveinn Geirsson, formaður leikmannasamtakanna, vill ekki sjá leikmenn gera slíkt.
,,Ef þú ert sigurvegari þá kanntu að tapa,“ sagði Arnar í nýjasta þætti Dr. Football.
Hörður Snævar Jónsson var ósammála, hann skildi ensku leikmennina vel. ,,Þetta er einhver lélegasti frasi sem ég hef heyrt.“
,,Þú sást hvaða maður hélt medalíunni um hálsinn, mesti sigurvegarinn í hópnum, Jordan Henderson,“ bætti Arnar þá við. ,,Sýndu bara smá virðingu, hafðu þetta um hálsinn, vertu á vellinum þegar Ítalía tekur á móti bikarnum.“