Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, ræddi við RÚV um það af hverju ofbeldishneigð enskra knattspyrnustuðningsmanna getur stafað.
Mikið vesen var á stuðningsmönnum enska liðsins fyrir úrslitaleik Evrópumótsins gegn Ítalíu í gær. Fjöldi slagsmála átti sér stað. England tapaði leiknum í vítaspyrnukeppni.
Viðar benti til að mynda á það að í kringum leiki hjá enska liðinu þá eykst heimilisofbeldi í landinu.
„Já, heldur betur, það er mikil ástæða til að hafa áhyggjur af því sem gerist í kringum þennan leik.“ „Það skiptir þá ekki endilega máli hvort England vinnur eða tapar. Til dæmis sýna rannsóknir að þegar England spilar á stórmótum í fótbolta eykst heimilisofbeldi í kjölfar leikjanna. Ef England tapar er það sérstaklega mikið, en ef England vinnur verður heimilisofbeldi meira en alla jafna,“ sagði Viðar fyrir leik gærdagsins.
Hann fór svo nánar út í það hvaða atriði það eru sem ýta undir slæma hegðun ensku stuðningsmannanna í kringum knattspyrnuleiki.
„Vegna þess að hvað sem gerist, hvort sem þeir spila heima eða heiman, þá verður einhver múgstemning sem magnast upp við ákveðnar aðstæður. Og fótboltinn veitir einhvers konar umgjörð sem dregur saman alls konar vandamál og þætti, eins og þjóðarstolt, eins og sjálfsmynd, vímuefnaneyslu, eitraða karlmennsku, hörku leiksins, að tilheyra einhverjum hópi; dregur þetta saman í einhvers konar suðupott, þegar svona tilfinningar og hugmyndir koma saman, og brjótast út í kringum þennan íþróttakappleik.“
Sjá einnig: Sjáðu myndband af grófum slagsmálum stuðningsmanna á Wembley í gær