Juventus hefur blandað sér í baráttuna um Granit Xhaka, miðjumann Arsenal. Calciomercato greinir frá.
Xhaka hefur leikið 220 leiki fyrir Arsenal frá því hann kom til félagsins frá Borussia Monchengladbach árið 2016. Hann var fastamaður í byrjunarliði Mikel Arteta, stjóra Arsenal, á síðustu leiktíð. Þrátt fyrir það virðist Arsenal vera tilbúið að leyfa honum að fara.
Félagaskipti Svisslendingsins til Roma hafa virst liggja í loftinu síðustu daga. Nú er hins vegar talið að Juventus muni veita þeim samkeppni um þennan 28 ára gamla miðjumann.
Xhaka átti mjög góðan leik á Evrópumótinu í gær er Sviss sló Frakkland út í 16-liða úrslitum. Hann var valinn maður leiksins. Sú frammistaða hefur ekki þótt fráhrindandi fyrir Juve.
Arsenal er talið vilja um 20 milljónir evra fyrir Xhaka. Hingað til hefur Roma ekki uppfyllt þær kröfur. Félagið gæti þó þurft að gera það fljótlega, ætli það sér ekki að missa hann til andstæðinga sinna í Serie A.
Xhaka hefur átt misjöfnu gengi að fagna í búningi Arsenal. Hann hefur átt mjög góða leiki í bland við ansi heimskuleg mistök inn á milli. Hann var fyrirliði liðsins en missti bandið eftir að hafa rifist við stuðningsmenn í miðjum leik árið 2019.