Öðru tilboði Aston Villa í miðjumanninn Emile Smith-Rowe hefur verið hafnað af Arsenal.
Hinn 20 ára gamli Smith-Rowe kom mjög sterkur inn í lið Arsenal um mitt síðasta tímabil. Hann lék 33 leiki og skoraði fjögur mörk. Hann varð að fastamanni í byrjunarliði Lundúnaliðsins.
Smith-Rowe á tvö ár eftir af samningi sínum við Arsenal og svo virðist sem einhverjir erfiðleikar séu að eiga sér stað í samningsviðræðum á milli hans og félagsins. Talið er að leikmaðurinn vilji ansi veglegan launapakka.
Aston Villa stökk til í byrjun mánaðar og bauð 25 milljónir punda í Smith-Rowe. Því tilboði var hafnað af Arsenal um hæl. Það sama á við um nýjasta tilboð Villa sem hljóðaði upp á 30 milljónir punda.
Smith-Rowe hefur verið hjá Arsenal frá tíu ára aldri. Þá hefur hann farið á láni til RB Leipzig í Þýskalandi og Huddersfield á Englandi.