Samkvæmt fréttum ytra mun Al-Hilal Riyad í Sádí-Arabíu leggja fram tilboð í Gylfa Þór Sigurðsson innan tíðar. Félagið hefur lengi haft áhuga á íslenska landsliðsmanninum.
Þannig segir Ekrem Konur blaðamaður í Tyrklandi að Al-Hilal muni bjóða 8,6 milljónir punda í Gylfa. Segir Konur einnig að Everton muni líklega taka tilboðinu.
Konur virðist hafa sterkar tengingar inn í aðila málsins en hann hefur birt fjölda af færslum um málið síðustu daga. Hann segir í dag að nú þurfi að sannfæra Gylfa um að fara til Sádí Arabíu.
Fyrir nokkrum dögum sagði Konur að Gylfi hefði ekki áhuga á að fara til Al-Hilal. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem félag frá Sádí-Arabíu reynir að fá Gylfa en það kom einnig upp síðasta sumar. Talsvert var rætt og ritað um framtíð Gylfa Þórs hjá Everton fyrir ári síðan, hann íhugaði aldrei að fara og Everton var ekki með nein plön um að selja hann. „Það kom þannig séð aldrei neitt upp, aldrei frá mér og aldrei frá liðinu. Ég vissi af einhverjum áhuga hér og þar, það var ekki í plönunum hjá mér eða Everton,“ sagði Gylfi Þór í samtali við 433.is á þeim tíma.
Erlendir miðarl hafa sagt frá tilboði sem Gylfi fékk frá Sádí Arabíu fyrir ári síðan, þar er vel borgað en það heillaði ekki Gylfa. „Nei, ég var ekkert að fara þangað,“ sagði Gylfi fyrir ári síðan í viðtali við 433.is.
Ljóst er að Gylfi sem er sagður þéna 850 milljónir á ári hjá Everton getur fengið ríflega launahækkun hjá Al-Hilal.
💰Al-Hilal Riyad will make a € 10m offer to Everton for Gylfi Sigurdsson.
👀🤔I think Everton will accept that offer. The important thing is to convince Gylfi Sigurdsson.#AlHilal #Everton #Sigurdsson #الهلال https://t.co/3HJJdUjdGp
— Ekrem KONUR (@Ekremkonur) June 25, 2021