Luke Shaw bakvörður Manchester United hefur fengið nóg af endalausum skotum frá Jose Mourinho. Samband þeirra þegar þeir unnu saman hjá Manchester United var ekki gott.
Shaw fann sig ekki en hefur blómstrað hjá United eftir að Mourinho var rekinn, stjóri Roma er hins vegar duglegur að ræða um Shaw í fjölmiðlum.
„Það er ekki hægt að fara í felur með það að okkur samdi ekki vel, það er samt komið að því að halda áfram. Ég er að reyna að fara áfram veginn en hann getur það ekki,“ sagði Shaw sem hefur fengið nóg af endalausum skotum Mourinho.
„Vonandi getur hann fundið frið og hætt að hafa svona miklar áhyggjur af mér. Ég er augljóslega fastur í hausnum á honum og hann hugsar mikið um mig. Ég skil þetta ekki alveg, ég skil ekki af hverju hann vill alltaf vera að ræða mig.“
Mourinho gagnrýndi hornspyrnur Shaw harkalega eftir sigur á Tékklandi í síðustu viku. „Þetta var ekki svona slæmt, ein af þremur spyrnum fór ekki yfir fyrsta mann.“
„Þetta var ekki svona slæmt eins og hann vildi láta það líta út. Ég er vanur því að hann segi neikvæða hluti um mig, ég er hættur að taka mark á þeim. Ég einbeit mér að því sem mínir þjálfarar segja við mig.“