Samkvæmt frétt Mirror er Raheem Sterling reiður út í Manchester City þar sem liðið virðist vera tilbúið að nota hann sem tálbeitu í tilraunum sínum til að ná í Harry Kane.
Kane hefur verið sterklega orðaður við Man City undanfarið. Tottenham hafnaði tilboði upp á 100 milljónir punda frá City á dögunum.
Talað hefur verið um að hinn 26 ára gamli Sterling gæti farið til Tottenham sem hluti af kaupverðinu fyrir Kane.
Sterling er sagður afar ósáttur við þetta þar sem hann taldi sig vera mikilvægan hluta af plönum Pep Guardiola, stjóra Man City. Sterling á tvö ár eftir af samningi sínum við félagið.
Þess má geta að hann hefur skorað bæði mörk enska landsliðsins á Evrópumótinu sem nú stendur yfir. Liðið mætir Þjóðverjum í 16-liða úrslitum á þriðjudag.