Jerome Rothen telur að Kylian Mbappe líti alltof stórt á sig og það sé að valda vandræðum fyrir Frakkland á Evrópumótinu í knattspyrnu.
Mbappe hefur ekki enn komist á blað á EM en hann var í rifrildi við Olivier Giroud fyrir mót og er talið að það hafi haft áhrif á hann.
„Hann er alltof góður með sig bæði innan og utan vallar og það pirrar mig,“ sagði Rothen við RMC sport.
„Didier Deschamps hefur ekki lengur stjórn á því og það er farið að valda vandræðum. Það kemur á óvart hvað Mbappe kemst upp með.“
„Við sjáum þetta á frammistöðunni hans. Hann hefur ekki átt gott Evrópumót. Við búumst við meiru frá honum. Allir eru sammála um það að hann sé einn besti leikmaður Evrópu.“