Harry Kane hefur ekki átt gott Evrópumót hingað til, hann hefur byrjað alla leiki án þess að skora mark. Þetta gæti kannski haft áhrif á sjálfstraust hjá einhverjum en ekki hjá Harry Kane.
„Fyrstu tveir leikirnir voru klárlega ekki mínir bestu og ég hefði getað verið betri þar,“ sagði Kane á blaðamannafundi.
„Mér fannst þriðji leikurinn vera erfiður en mér leið miklu betur. Ég tók meiri þátt í þeim leik. Ég gæti farið í gegnum marga leiki án þess að skora en ef ég fæ tækifæri þá veit ég að ég nýti það.“
„Ég er á góðum stað. Ég er líkamlega í besta forminu hingað til á EM fyrir næsta leik og þannig setti ég þetta upp.“
„Á HM í Rússlandi byrjaði ég mjög sterkt, skoraði mikið en náði ekki að skila eins góðum frammistöðum í mikilvægustu leikjunum – 8-liða úrslitum og undanúrslitum.“
„Ég er því að reyna að toppa á réttum tíma núna. Rétti tíminn er eftir riðlakeppnina,“ sagði Harry Kane á blaðamannafundi