Enska knattspyrnusambandið ætlar að bjóða Gareth Southgate framlengingu á samningnum við sambandið.
Núverandi samningi hans lýkur strax eftir heimsmeistarakepnnina í Katar 2022, en stjórnarmenn enska knattspyrnusambandsins vilja ólmir að hann verði lengur en það.
„Við myndum klárlega vilja að hann væri áfram,“ sagði Bullingham, stjórnarformaður enska knattspyrnusambandsins
„Gareth veit nákvæmlega hvað okkur finnst um hann. Hann veit að okkur finnst hann standa sig vel og við viljum hafa hann áfram.“
„Við munum tala saman formlega eftir mótið, en ef þú spyrð mig núna þá viljum við að hann haldi áfram. Hann hefur fullkominn stuðning okkar eftir frábært gengi á vellinum.“
England mætir Þýskalandi í 16-liða úrslitum á Evrópumótinu í knattspyrnu á þriðjudag. Bullingham var spurður að því hvort að úrslit úr þeim leik hefðu áhrif á þennan nýja samning.
„Þú hefur bara spurt að skoðun minni á því að hann sé áfram og hvað mér finnst um hann. Hann er að gera frábæra hluti en ég hef ekki sagt að það sé búið að bjóða honum nýjan samning,“ sagði Bullingham að lokum.