Kieran Tierney gerði í dag nýjan fimm ára samning við Arsenal. Þá ætlar félagið sér einnig að endursemja við Emile Smith-Rowe.
Tierney, sem er 24 ára gamall vinstri bakvörður, hefur verið einn mikilvægasti leikmaður Arsenal frá því að hann kom frá Celtic sumarið 2019.
Þá er einnig talið að hjá Arsenal sjái menn hann fyrir sér sem framtíðarfyrirliða. Þetta eru því afar góð tíðindi fyrir stuðningsmenn liðsins.
Smith-Rowe er 20 ára gamall. Hans helsta staða er framarlega á miðjunni. Hann braut sér leið inn í byrjunarlið Arsenal um miðja síðustu leiktíð og ríghélt í stöðuna út tímabilið, enda stóð hann sig afar vel.
Takist að endursemja við Smith-Rowe mun samningur hans gilda til ársins 2026, líkt og samningur Tierney.