Daniel James, vængmaður Manchester United, segist eiga nóg inni. Hann gæti færst aftar í goggunarröðina hjá liðinu, takist því að styrkja sig í sumar.
James spilaði aðeins 15 leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Hann skoraði þrjú mörk.
Jadon Sancho, leikmaður Dortmund, hefur verið sterklega orðaður við Man Utd undanfarið. Komi hann til félagsins yrði spiltími James enn takmarkaðri. Þá fékk enska liðið Amad Diallo frá Atalanta í janúar.
James, sem kom til Man Utd frá Swansea sumarið 2019, segist eiga eftir að sýna mun meira.
,,Ég er að læra. Ég horfi á frammistöðu mína í hverjum einasta leik og á hverri einustu leiktíð. Það skiptir ekki máli hvort ég spili eða ekki, ég er alltaf að læra. Fyrir mér þá er ég ekki næstum því kominn þangað sem ég get farið og mig langar bara að halda áfram að bæta mig,“ sagði James.