Antonio Conte, sem sagði nýverið upp hjá Ítalíumeisturum Inter, er í viðræðum við Tottenham. Í frétt The Times segir að Conte vilji aðeins taka við Tottenham ef liðinu tekst að halda Harry Kane áfram hjá félaginu.
Kane er eftirsóttur af ýmsum félgöum, sérstaklega Manchester United, Manchester City og Chelsea eftir að hann greindi frá því að hann vilji yfirgefa Tottenham til þess að vinna titla.
Þá segir einnig í frétt The Times að Conte vilji fá nægan pening á félagsskiptamarkaðinum í sumar til þess að styrkja liðið.
Fabrizio Romano heldur því fram að enn sé langt í land á milli Conte og Tottenham en Conte er þekktur fyrir það að vilja ansi há laun hjá þeim félögum sem hann starfar hjá.
Eftir að Conte var fyrst orðaður við starfið hjá Tottenham fóru blaðamenn á Mirror strax að grafa upp gömul ummæli hans um liðið þegar hann var stjóri Chelsea sem glöddu stuðningsmenn Tottenham á sínum tíma.
„Tottenham hefur nú mikil völd í enskum fótbolta. Þetta er þriðja árið þeirra undir stjórn Pochettino og ég held að nú sé tímabært að hætta að tala um þá sem litla liðið og frekar um lið sem geti keppt um alla titla.“