Eiginkona Thiago Silva leikmanns Chelsea hefur blandað sér í mál sem verið hefur á milli tannanna á fólki. Real Madrid tók á móti Chelsea í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli liðanna.
Chelsea byrjaði leikinn af krafti og átti Timo Werner dauðafæri sem hann klúðraði strax í byrjun leiks. Pulisic braut ísinn fyrir gestina þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiknum með flottu marki eftir sendingu frá Rudiger. Eftir markið héldu gestirnir áfram að sækja en það var Benzema sem jafnaði metin eftir hálftíma leik þvert gegn gangi leiksins. Síðari leikurinn eftir viku fer svo fram á Englandi.
Timo Werner framherji Chelsea fékk dauðafæri í leiknum til þess að skora en hann hefur ekki verið heitur fyrir framan markið. Werner hefur klúðrað dauðafærum reglulega.
Isabelle eiginkona Silva birti myndbönd á Instagram yfir leiknum en hefur nú eytt þeim. „Í hverju einasta liði sem við erum í eru framherjar sem klúðra svona færum. Þessi Werner, hvað heitir hann?,“ sagði Isabelle.
„Við þurfum mark, við þurfum að vinna þennan leik en framherjinn vill ekki skora. Ég veit ekki af hverju.“